sunnudagur, apríl 1

farwell and goodbye


Ég ætla að segja litla sögu, jafnvel litla dæmisögu sem gæti verið gott að hafa bakvið eyrað næst þegar við kvörtum yfir lélegu stefnumóti.

Mér var einu sinni boðið á hið fullkomna bíómynda stefnumót. Ég bjó í Bandaríkjunum á þeim tíma og þekkti fáa. Hann hafði séð mig einu sinni og taldi sig vera tilvalinn til að sína litlu íslensku stelpunni staðarvenjur og kurteisi sem víkingar langt í burtu þekktu ekki né kunnu.

Hann hringdi bjöllunni á slaginu sex þrjátíu. Mér hafði verið sagt að láta hann bíða í þrjár mínútur, það var víst venjan. Hann tók á móti mér með rauða rós, snjóhvítt bros og sleikt hár. Fyrsta hugsunin mín var ,, ó gvuð, þetta á eftir að vera sykursætt”en ég ákvað að láta slag standa og taka áhættuna. Hann opnaði fyrir mig dyrnar í nýbónaðan kaggann sem var útbúinn öllum nýjustu græjunum. Verst að hann vissi ekki að svona glamúr heillaði ekki þessa stelpu.

Við fórum á sígildan ítalskan veitingastað. Ég pantaði mér þriggja rétta máltíð og fordrykk. Mér varð svo litið upp frá matseðlinum þegar hann pantaði sér salat. Bara salat. Venjan var víst að panta sér salat, vera ögn pen. Ég var víst bara sveitastúlka sem ekki kunni sig. Hann var svo góður að skrifa þetta á mismunandi menningarheima, ég var frá Evrópu þar sem allt er öfugsnúið og asnalegt. Áfram hélt stefnumótið þar sem ég gúffaði í mig mat og hann nartaði eins og héri í fjögur salatblöð. Við reyndum að halda uppi samræðum en staðreyndin var sú að hans leið til að villa fyrir vöntun á persónuleika var að telja upp eignir og bankainnistæður, afskaplega óheillandi og niðurdrepandi.

Ég varð svo glöð í hjartanu þegar hann lagði fína gullkortið sitt á reikninginn og ég taldi mig vera sloppna. Það fór úr öskunni yfir í eldinn.

Leiðin lá næst í bíó. Ég taldi mig heppna því að nú fengi ég loksins frið fyrir leiðinlegum og þvinguðum samræðum. Sögupersónurnar höfðu rétt verið kynntar þegar ég tók eftir því að það var verið að stara á mig. Þarna sat kaninn og starði mig í hel. Bara starði. Ég bað hann ítrekað um að hætta þessu en allt kom fyrir ekki. Það leið aðeins á myndina og ég var farin að venjast störunni. Útundan mér sá ég hann skyndilega geispa. Í sömu andrá virtist vinstri höndin taka kipp og krækja sig utan um mig.

Mér var öllu lokið. Á þessu augnabliki stóð tíminn í stað og ég trúði ekki að þetta væri minn veruleiki, ég beið eftir að vera ,,tekinn”. Mér var kastað tilbaka úr mínum eigin hugarheimi þegar rennandi blaut tunga læddist inn í hægra eyrað mitt. Ég fylltist slíkum viðbjóð að sjálfkrafa viðbrögð voru þau að æpa upphátt blótsyrði á móðurmálinu.

Það var á þessum tímapunkti sem ég ákvað að víkingarnir væru ekki alslæmir og að sundferð væri hið fínasta stefnumót......

Takk fyrir mig.

siggadögg
-sem var að skrifa póst númer 300-

Engin ummæli: